Jói Útherji í 25 ár!

Maggi Pé og Valdi með Chelsea-kempunum Bobby Tambling og Ron „Chopper“ Harris

Um þessar mundir eru 25 ár síðan Knattspyrnuverslunin Jói útherji var opnuð, nánar tiltekið á sumardaginn fyrsta 1999.

Goðsögnin Maggi Pé og Valdimar sonur hans voru stofnendur og fyrstu eigendur Jóa útherja og þegar Maggi Pé settist í helgan stein fyrir u.þ.b. 10 árum keypti Valdimar hlut föður síns í versluninni.

Valdimar seldi svo verslunina fyrir nokkru síðan og er Grímur Alfreð Garðarsson nýr eigandi.

Jói útherji er í dag sérhæfð knattspyrnuverslun og heildsala og hefur þjónustað allt frá stofnun verslunarinnar knattspyrnuiðkendur með allt sem þarf í fótboltann.

Verslunin í Ármúla 36 hvar hún hefur verið til húsa frá upphafi hefur stækkað jafnt og þétt og er nú meira en þrefalt stærri en hún var til að byrja með.

Í byrjun september 2019 opnaði Jói útherji aðra verslun í Bæjarhrauni 24 í Hafnarfirði.

Allt frá stofnun Jóa útherja hafa eigendur og starfsfólk verslunarinnar og Chelsea-klúbburinn átt gott og farsælt samstarf sem stjórn Chelsea-klúbbsins þakkar kærlega fyrir um leið og við óskum bæði fyrrverandi og núverandi eigendum Jóa útherja innilega til hamingju á þessum merku tímamótum í sögu verslunarinnar.

Stjórn Chelsea-klúbbsins á Íslandi.

Upp