Nú hafa árgjöld fyrir næsta starfsár, þ.e. keppnistímabilið 2015 – 2016, verið ákveðin en skemmst er frá því að segja að Chelsea Football Club hefur ákveðið að árgjöld í flokkum fullorðinna skuli óbreytt frá síðasta ári en hins vegar er barna- & unglingaflokknum nú skipt upp í þrjá undirflokka, nánar tiltekið í True Blue Teens (13 – 19 ára), True Blue Juniors (1 – 12 ára) og True Blue Babies (0-1 árs).
Því miður er um að ræða hækkun árgjalds fyrir flest þau börn og unglinga sem skipa þessa flokka með tveimur undantekningum þó, aldursflokkurinn 1 – 18 ára þarf að taka á sig hækkun sem nemur íslenskum krónum 1.000.- (var kr. 4.500.-, verður nú kr. 5.500.-) en hjá aldursflokkunum 0-1 árs og 19 ára lækkar árgjaldið hins vegar, um kr. 1.000.- hjá litlu krílunum en frá kr. 1.000.- hjá 19 ára aldursflokknum. Hins vegar hefur heldur verið bætt í þá gjafapakka er fylgja þessum árgjaldsflokkum.
Nánari upplýsingar um flokkana og innihald þeirra má finna á heimasíðu Chelsea klúbbsins, www.Chelsea.is (Chelsea klúbburinn – Árgjald), þá er einnig hægt að fá upplýsingar í síma 864 6205.
Við vonumst svo eftir skjótum viðbrögðum, minnum á að þeir sem greiða árgjaldið fyrir 1. ágúst n.k. fá sjálfkrafa fimm „Loyalty Points“ hjá Chelsea Football Club sem kunna að koma sér vel á næsta keppnistímabili!