Chelsea klúbburinn

Chelsea klúbburinn á Íslandi var formlega stofnaður þann 16. mars 1997 og var stofnfundur klúbbsins haldinn á sportbarnum Ölver í Reykjavík, rétt eins og undirbúningsfundur að stofnun klúbbsins er þar var haldinn skömmu áður eða þann 26. febrúar. Það voru 22 áhugasamir félagar um Chelsea Football Club er mættu á stofnfundinn og tilnefndu þeir fimm úr sínum hópi til að skipa fyrstu stjórn klúbbsins. Voru það þeir Birgir B. Blomsterberg, Eyjólfur Þ. Þórðarson, Friðrik Þorbjörnsson, Karl H. Hillers og Páll Ásmundsson. Á fyrsta stjórnarfundi skiptu menn svo með sér verkum, var Eyjólfur tilnefndur formaður, Páll gjaldkeri og Birgir, Friðrik og Karl meðstjórnendur.

Þessi stjórn sat svo óbreytt til 1. september 2002 er þeir Friðrik og Páll gengu úr stjórn en í þeirra stað voru kjörin Helga K. Hillers og Garðar Árnason. Þá skiptu menn að nýju með sér verkum, Karl tók við formennsku klúbbsins, Helga var tilnefnd gjaldkeri, Birgir ritari, Eyjólfur og Garðar meðstjórnendur.

Fljótlega bættust svo enn fleiri í hópinn er óskuðu eftir að vera skráðir á meðal stofnfélaga og taldist fjöldi stofnfélaga alls vera 33 er upp var staðið.

Aðaltilgangur með stofnun Chelsea klúbbsins var, samkvæmt stofnsamþykkt hans, sá að halda utan um hóp manna er höfðu það að áhugamáli að hittast og horfa saman á leiki Chelsea Football Club ásamt því að að fara utan á leiki félagsins.

Allt frá upphafi hefur Ölver verið opinber samkomustaður Chelsea klúbbsins, að einu ári undanskildu er Riddarinn í Kópavogi tók við því hlutverki. Félagsmenn hafa mætt misvel er leikir Chelsea hafa verið sýndir í beinni útsendingu sjónvarps, allt frá örfáum hræðum upp í þéttsetin salarkynnin.

Strax á fyrsta ári var skipulögð og farin ferð til London að sjá leik með Chelsea, fyrir valinu varðleikur Chelsea og Newcastle United og fóru í þá ferð 17 manns. Skemmst er frá því að segja að Chelsea vann leikinn 1-0. Síðan hafa fjölmargar ferðir verið farnar á vegum klúbbsins, bæði til London og Cardiff, formlegar hópferðir jafnt sem óformlegar. Er nú svo komið að Chelsea klúbburinn býður upp á ferðir á alla leiki er Chelsea leikur á Stamford Bridge, þá hefur og verið boðið upp á ferðir á leiki liðsins er fram fara í Evrópukeppnum og í úrslitum ensku bikarkeppnanna.

Árið 2003 má segja að hafi orðið straumhvörf í þessum ferðum Chelsea klúbbsins er hann gekk til samstarfs við Hópadeild Icelandair og Axis Globe Travel í London en í samvinnu við þessa aðila var undantekningarlítið hægt að ganga að pakkaferðum á Stamford Bridge vísum, innifalið flug, gisting á Chelsea Village Hotel (nú The Millennium & Copthorne Hotels at Chelsea Football Club) Dinner, skoðunarferð um Stamford Bridge og miði á viðkomandi leik.

Sumarið 2005 tók svo ferðaskrifstofan Markmenn (síðar Express Ferðir) við þessu hlutverki en í dag er Icelandair helsti samstarfsaðili Chelsea klúbbsins er kemur að flugi til London.

Á hverju sumri kjósa félagsmenn Chelseaklúbbsins sín á milli besta leikmann Chelsea undangengið leiktímabil, fulltrúar klúbbsins mættu á Stamford Bridge fyrir ákveðin leik næsta keppnistímabils er þeim hafði verið úthlutað af Chelsea Football Club og afhentu viðkomandi leikmanni viðurkenningu frá Chelsea klúbbnum. Var þetta mjög tilkomumikið fyrir þá fulltrúa klúbbsins sem komu að þessari athöfn hverju sinni. Að vera inn á leikvanginum sjálfum fyrir einhvern stórleikinn, yfir 40 þúsund manns viðstaddir, stillt sér upp með leikmanni ársins, myndataka, allt sýnt á risaskjánum á Stamford Bridge og rækilega kynnt í hátalarakerfi vallarins, þetta var stund sem seint eða aldrei gleymist þeim klúbbfélögum sem hafa orðið þessa heiðurs aðnjótandi. Því miður er Chelsea Football Club búið að leggja þennan góða sið af í þessari mynd en þess í stað fer fram sameiginlegt kjör félaga í öllum stuðningsmannaklúbbum Chelsea og er svo dregið um fulltrúa einhvers af klúbbunum sem þátt taka hverju sinni og fá viðkomandi þann heiður á síðasta heimaleik Chelsea hvert keppnistímabil að afhenda þeim leikmanni er hlutskarpastur varð viðurkenningu fyrir hönd stuðningsklúbba félagsins.

Fyrsta starfsár Chelseaklúbbsins kom það í hlut stjórnarinnar að tilnefna leikmann ársins 1997/1998 og varð Ed de Goey fyrir valinu. Síðan hafa klúbbfélagar kosið þá Tore André Flo (1998/1999), Dennis Wise (1999/2000), Jimmy Floyd Hasselbaink (2000/2001), Carlo Cudicini (2001/2002), Gianfranco Zola (2002/2003), Frank Lampard (2003/2004) og John Terry (2004/2005) sem leikmenn ársins. John Terry mun fá sína viðurkenningu afhenta fyrir leik Chelsea gegn Liverpool á Stamford Bridge þann 4. febrúar 2006. Þá er og eftir að afhenda Zola viðurkenningu sína en snillingurinn var farinn til Sardiníu er úrslitin lágu fyrir, stefnt er að því að fá Zola til landsins og mun honum þá verða afhent viðurkenning sín sem og viðurkenning fyrir að hafa verið kjörinn besti leikmaður allra tíma hjá Chelsea af félögum í Chelsea klúbbnum. Vonandi verður af heimsókn kappans fyrr en síðar en betra er seint en aldrei.

Tímamót urðu í sögu Chelsea klúbbsins á vormánuðum 2001 er heimasíðunni Chelsea.is var hleypt af stokkunum. Umsjónarmaður síðunnar fyrstu árin var Orri Ýrar Smárason og var heimasíðan með slíkum glæsibrag að eftir var tekið, bæði innan lands sem utan. Þótti hún ákaflega smekkleg, einföld allrar gerðar og aðgengileg. Orri lét af störfum sem frétta- og vefstjóri Chelsea.is sumarið 2004 og hófst þá hálfgerð sorgarsaga í rekstri hennar sem hefur nú sem betur fer tekið enda. Verður ekki annað sagt en að Chelsea klúbburinn sé fullsæmdur af nýrri og bættri heimasíðu er fór í loftið í fyrsta sinn þann 3. september 2005.

Á meðal þess sem Chelsea klúbburinn hefur staðið fyrir hér heima má nefna happdrætti, sumarferð, grillveislur, fjölskyldumót, heimsóknir til Chelseamanna á Selfossi og á Akureyri en sú ferð gleymist seint þeim er í hana fóru af ýmsum ástæðum. Þá hefur Chelsea klúbburinn reynt að láta gott af sér leiða á einn eða annan hátt, t.d. gefið fótbolta á uppboð til styrktar góðum málefnum, áritaðan af leikmönnum Chelsea, einnig áritaðar treyjur leikmanna.

Þá skal og nefna að í tvígang hefur Chelsea klúbburinn boðið skjólstæðingum Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna á leiki með Chelsea.

Ýmsu öðru hafa klúbbfélagar komið að á þessum árum í nafni Chelsea klúbbsins, klúbbfélagar hafa t.d. tekið þátt í knattspyrnumóti fyrir stuðningsmannaklúbba hér á landi en ekki var árangurinn til að hrópa húrra fyrir. Hins vegar er hægt að hrópa húrra og það ferfalt fyrir frammistöðu fulltrúa Chelseaklúbbsins í getraunakeppni þeirri er Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík, Útvarpsstöðin Stjarnan og Knattspyrnuverslunin Jói útherji stóðu fyrir vorið 2003 í samvinnu við Íslenskar getraunir. Fulltrúar átta stuðningsmannaklúbba hér á landi tóku þátt í þessari mjög svo skemmtilegu keppni og er skemmst frá því að segja að Chelsea klúbburinn vann hana með slíkum glæsibrag að andstæðingarnir hafa haldið sig til hlés á þessum vettvangi síðan. Knattspyrnuverslunin Jói útherji gaf glæsilegan bikar að launum í þessari keppni og ÍFR hélt öllum þátttakendum heljarins veislu.

Ekki má svo gleyma tippleiknum sem hefur verið í gangi á Chelsea.is undanfarin misseri.

Þá má og nefna aðkomu Chelsea klúbbsins að nýstofnuðum samtökum stuðningsmannklúbba hér á landi en þau hafa í samstarfi við sjónvarpsstöðina Skjár 1 komið að þáttaröð á sjónvarpsrásinni Enski boltinn, bæði með sameiginlegan þátt auk þess sem klúbbarnir hafa verið með sína eigin þætti.
Er hér um mjög svo spennandi verkefni að ræða og vonandi Chelsea klúbbnum til bæði framdráttar og sóma. Þá hafa fulltrúar klúbbsins og verið tíðir gestir í öðrum fjölmiðlum vegna umfjöllunar um Chelsea Football Club og leiki liðsins ásamt því að kynna klúbbinn fyrir landsmönnum.

Í tilefni 100 ára afmælis Chelsea Football Club eru svo ýmsar uppákomur fyrirhugaðar á afmælisárinu, bæði hérlendis sem erlendis, allt til enda keppnistímabilsins. Verða þær kynntar klúbbfélögum er nær dregur hverju sinni og reyndar er veislan þegar hafin.

Chelsea klúbburinn á Íslandi hefur þá sérstöðu gagnvart öðrum stuðningsmannaklúbbum hér á landi að hann er, ólíkt hinum klúbbunum, viðurkenndur aðildarklúbbur innan móðurfélagsins. Hver sá sem gengur til liðs við Chelseaklúbbinn á Íslandi er þar með orðinn félagsmaður í Chelsea Football Club í London, með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgir.

Fyrstu 5 árin voru félagar í Chelsea klúbbnum þetta á bilinu 30 – 40 manns en frá og með árinu 2002 hefur þeim fjölgað verulega, urðu 54 árið 2002, alls 111 árið eftir og 147 í fyrra. Fari sem horfir er línur þessar eru ritaðar stefnir í um 40% fjölgun félagsmanna á milli ára og ættu félagsmenn að vera orðnir u.þ.b. 200 um áramótin 2005/2006. Á þessum rúmlega átta árum sem klúbburinn hefur starfað hafa u.þ.b. 300 manns skráð sig í klúbbinn, brottfall á milli ára hefur ávallt verið eitthvað, hverju svo sem um er að kenna.

Hér hefur verið stiklað á stóru um Chelsea klúbbinn á Íslandi og fyrir hvað hann stendur en vonandi ert þú, lesandi góður, einhverju nær um starfsemi hans. Ef þú ert ekki félagi í klúbbnum nú þegar en fylgir Chelsea að málum, hvernig væri að ganga til liðs við Chelseaklúbbinn á Íslandi og verða þar með félagi í Chelsea Football Club, besta knattspyrnuliði Englands og einu besta knattspyrnuliði heimsins?

Áfram Chelsea !

Upp