Ferðasaga með boðsgestum á leik CFC og Swansea 26. – 28. apríl 2013

Chelsea klúbburinn á Íslandi, í samvinnu við Gaman Ferðir og WOW air, stóð fyrir hópferð á leik Chelsea og Swansea City dagana 26. – 28. apríl s.l. og tókst ferðin með ágætum. Á meðal þátttakenda voru sex boðsgestir á vegum ofantaldra aðila, var hér um að ræða tvo skjólstæðinga Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og forráðamann hvors barns sem og skjólstæðing Einstakra barna og forráðamann en sá skjólstæðingur er jafnframt félagi í Chelsea klúbbnum á Íslandi.

Lagt var af stað frá Keflavíkurflugvelli árla morguns föstudaginn 26. apríl en flug WOW air, X9201 til London Gatwick, fór í loftið um kl. 07:00 og var svo lent á Gatwick flugvelli um kl. 11:00 að staðartíma, þar biðu tveir “Míní bössar” hópsins og var ekið sem leið liggur til Stamford Bridge í Lundúnum.

Alls gistu 22 einstaklingar á The Millennium & Copthorne Hotels at Chelsea Football Club vegna hópferðarinnar en auk þess bættust við ellefu aðrir við hópinn fyrir leik en höfðu gist annars staðar, ýmist á öðrum hótelum eða hjá vinum og vandamönnum.
Boðsgestanna beið skoðunarferð um Stamford Bridge í boði Chelsea klúbbsins strax á föstudeginum er þeir höfðu komið sér fyrir á hótelinu og var gerður góður rómur að henni, margt spennandi og skemmtilegt að sjá og fararstjórinn var á léttu nótunum eins og vera ber.
Að kvöldi komudags var svo kvöldverður á 55 Restaurant í boði Chelsea klúbbsins, til stóð að einhver leikmanna Chelsea myndi kíkja við og heilsa upp á gestina en því miður varð ekki af því og var sú skýring gefin að vegna mikils álags á leikmönnum hefði þjálfarateymið lagst gegn öllu því sem kynni að trufla einbeitingu leikmanna þessa dagana. Var sú skýring tekin góð og gild.
Þess má geta að tengiliðum okkar hjá Chelsea Football Club þótti þetta svo miður að viðkomandi deild ákvað að senda þessum þremur skjólstæðingum okkar “bland í poka” í sárabætur og fellur innihaldið vonandi vel í kramið hjá þeim.

Laugardagurinn var svo frjáls, þ.e. engin skipulögð dagskrá, og notuðu sumir daginn til að skreppa í dýragarðinn, sumir fóru í búðarrölt, aðrir skoðuðu sig um í Lundúnaborg, einhverjir gerðu þetta allt saman!

Sunnudagurinn var svo aðaldagur heimsóknarinnar á Stamford Bridge en þennan dag atti Chelsea kappi við Swansea City í Úrvalsdeildinni. Skemmst er frá því að segja að Chelsea hafði sigur með tveimur mörkum gegn engu marki andstæðinganna og féllu þau úrslit í góðan jarðveg. Um kl. 19:00 var svo haldið frá Stamford Bridge til Gatwick flugvallar í rútu í boði Gaman Ferða en áður en smalað var í rútuna voru nokkrir ferðalanganna svo heppnir að hitta m.a. á Mata, John Terry og þann aldna heiðursmann, Roy Bentley. Auk þess gisti Íslandsvinurinn Bobby Tambling á hótelinu þessa sömu daga og fengu flestir myndir af sér með þessum öðlingi ásamt eiginhandaráritun.Íslandsvinirnir Kerry Dixon og Ron “Chopper” Harris voru ekki langt undan þessa daga, biðja þeir allir um bestu kveðjur til fylgismanna Chelsea á Íslandi.Heimferðin gekk svo snuðrulaust og það voru sælir en þreyttir ferðalangar er lentu á Keflavíkurflugvelli undir miðnætti sunnudagskvöldið 28. apríl s.l. 

Það er einlæg von þeirra aðila er stóðu að þessari heimsókn til Lundúna að ferðalangarnir hafi notið ferðarinnar og að dvölin á Chelsea hótelinu hafi verið þeim þægileg. Sendum ykkur okkar bestu kveðjur og óskum skjólstæðingunum þremur skjótum og góðum bata, sjáumst kát og hress þó síðar verði.

Stjórn Chelsea klúbbsins á Íslandi.
Hér má sjá nokkrar myndir teknar í ferðinni: 

[widgetkit id=2]

Upp