banner forsida600x150

Aðalfundur Chelsea klúbbsins - samantekt fundar

Aðalfundur Chelsea klúbbsins fór fram á Grand Hótel Reykjavík síðastliðinn laugardag og var vel sóttur, 45 félagsmenn mættu til leiks og áttu notalega stund saman.

Dagskrá fundarins var að mestu hefðbundin, formaður klúbbsins flutti skýrslu stjórnar vegna starfsársins 2020 – 2021, þá var ársreikningur fyrir sama tímabil kynntur fundargestum, var skýrsla stjórnar og ársreikningur samþykkt samhljóma af fundargestum en fjármál klúbbsins eru í ágætu standi, þrátt fyrir óáran þá er dunið hefur yfir okkur á undanförnum misserum.

Ein breyting varð á stjórn klúbbsins, Vésteinn Örn Pétursson tók sæti Péturs Bjarka Péturssonar er sagði sig frá stjórnarstörfum í byrjun yfirstandandi starfsárs, aðrir er skipa stjórn eru Helgi Rúnar Magnússon, Karl Henrik Hillers, Kristján Þór Árnason og Pétur Pétursson.

Endurskoðendur klúbbsins, Sölvi Sveinsson og Þórður Óskarsson, voru endurkjörnir, sama gilti um meðlimi laganefndar, þá Birgi Ottó Hillers og Friðrik Þorbjörnsson. Stjórn klúbbsins mun svo skipa til viðbótar formann laganefndar á næsta stjórnarfundi.

Formaður fráfarandi laganefndar, Helgi Rúnar, kynnti drög að reglum um tilnefningar heiðursfélaga Chelsea klúbbsins og voru þau samþykkt einróma.

Í framhaldinu var svo Páll Ásmundsson tilnefndur heiðursfélagi Chelsea klúbbsins á Íslandi og er Páll fimmti félaginn úr röðum klúbbfélaga er verður þessa heiðurs aðnjótandi og er hann vel að tilnefningunni kominn. Var Páli afhent heiðursskjal tilnefningunni til staðfestingar auk forláta blómvandar.

Loks var svo dregið í happdrættum þeim sem eru fastaliðir á aðalfundi klúbbsins og hlutu 21 klúbbfélagi glaðning að þessu sinni.

Stjórn Chelsea klúbbsins þakkar fundargestum sem og þeim styrktaraðilum er lögðu okkur lið í tengslum við aðalfundinn kærlega fyrir þeirra framlag. Þá fá starfsmenn Grand Hótels einnig bestu þakkir fyrir glæsilegar veitingar, hjálpsemi og hlýtt viðmót.

Þá kann stjórnin Birgi Blomsterberg bestu þakkir fyrir að taka að sér fundarstjórn með mjög svo skömmum fyrirvara.Að loknum fundi var svo horft á leik Chelsea vs Burnley í beinni útsendingu frá Stamford Bridge og venju samkvæmt hitaði Willum Þór Þórsson upp fyrir leik með fundargestum, sama var upp á teningnum í leikhléi og leikurinn var svo fljótafgreiddur eftir að lokaflautan gall við, úrslitin vonbrigði en efsta sætið þó tryggt áfram næstu vikurnar hið minnsta.

Og líkt og ávallt fór Willum á kostum.

Stjórnin þakkar fyrir sig.

KTBFFH.