rag-snjoblasari
banner forsida600x150

Chelsea Women að byrja sitt tímabil

Stelpurnar okkar áttu næstum því fullkomna síðustu leiktíð. Unnum allar keppnir á Englandi, sem hafa verið kláraðar það er að segja, FA Cup er eftir sem klárast í desember þetta árið. Sam Kerr og Fran Kirby áttu rosalega leiktíð með 37 mörk á milli sín í deildinni og margar stoðsendingar að auki.

Svo komumst við í úrslit í Meistaradeildinni en lentum á vegg gegn Börsungum, skrifum hluta af ástæðunni fyrir tapinu á að hafa spilað í nýja búningnum.

Það eru nokkrar breytingar á leikmannahópnum milli ára. Varnarmaðurinn Aniek Nouwen kom frá PSV í vor og framherjinn Lauren James kom frá Manchester United í sumar. Að fá Lauren sérstaklega inn eykur breiddina í hópnum og hugsanlega höfuðverk Emmu Hayes í leiðinni en ég hef fulla trú á Emmu nú sem áður til að velja góð lið á komandi leiktíð. Nýr aðstoðarþjálfari er einnig komin á Kingsmeadow, það er hin ástralska Tanya Oxtoby sem kom í vikunni frá Bristol City.

Hannah Blundell og María Þórisdóttir eru farnar til Manchester United, Emily Orman fór á lán til Palace, Aggie Beever-Jones á lán til Bristol og Charlotte Wardlaw á lán til Liverpool.

Fyrsti leikur í Ofurdeildinni á nýrri leiktíð er gegn Arsenal á morgun, sunnudaginn 5.september kl.11.30. Leikurinn fer fram á Emirates.

*ATH* það stendur 12.30 á auglýsingunni fyrir leikinn en 1 klst tímamismunur er á milli Íslands og Englands.

Leikurinn er sýndur á Viaplay og Sky Sports sem keyptu nýverið sjónvarpsréttinn á Ofurdeildinni í Bretlandi, þetta er að mér skilst langstærsti sjónvarpsréttarsamningur sem gerður hefur verið á útsendingum frá kvennadeild í heiminum, því ber að fagna.

Góða skemmtun!

-Alexander Harðarson-