banner forsida600x150

Kai Havertz kominn á Brúnna

Chelsea er að ganga frá kaupunum á Kai Havertz, sóknarmanni Bayer Leverkusen, en það er þýski fjölmiðillinn Bild sem greinir frá þessu. Forráðamenn Chelsea þurfa hins vegar að opna veskið til þess að fá þýska landsliðsmanninn sem hefur verið á meðal eftirsóttustu leikmanna heims í allt sumar.

Þjóðverjinn er einungis 21 árs gamall en Chelsea þarf að borga í kringum 100 milljónir evra fyrir hann. Chelsea mun borga Bayer Leverkusen 80 milljónir evra til að byrja með og seinna meir munu 20 milljónir evra bætast við en þær verða einnig árangurstengdar. Þá er fimm ára samningur á borðinu fyrir Havertz sem metinn er á 100 milljónir evra.

Havertz verður þriðji leikmaðurinn til þess að ganga til liðs við Chelsea í sumar en þeir Timo Werner og Hakim Ziyech skrifuðu báðir undir samningi við félagið á dögunum. Frank Lampard, stjóri Chelsea, er hins vegar ekki hættur á leikmannamarkaðnum samkvæmt enskum miðlum og vill einnig bæta við sig vinstri bakverði og miðverði áður en félagaskiptaglugganum verður lokað.