banner forsida600x150

Fréttamolar: Deildarbikar, Evrópudeild o.fl.

Nokkrir fréttamolar úr herbúðum Chelsea og Chelsea klúbbsins:

Deildarbikar (Carabao Cup)

Nú liggur fyrir að Chelsea mun mæta Liverpool í þriðju umferð deildabikarsins og fer leikur liðanna fram á Anfield Road í Liverpool, væntanlega miðvikudagskvöldið 26. september n.k. Það er ljóst að forkaupsréttur okkar á miðum á þennan leik verður mjög skammur og látum við vita nánar þar um þegar upplýsingar vegna þessa berast okkur frá höfuðstöðvunum.

Evrópudeild (Europa League)

Rétt í þessu var dregið í riðla í Evrópudeildinni og verða andstæðingar okkar manna lið PAOK Thessaloniki (Grikkland), BATE Borisov (Hvíta-Rússland) og MOL Vidi (Ungverjaland). Riðlakeppnin hefst fimmtudagskvöldið 20. september og lýkur svo fimmtudagskvöldið 13. desember, um leið og niðurröðun leikja liggur fyrir munum við senda ykkur tölvupóst þar um sem og um forkaupsrétt á miðum en búast má við að skammur fyrirvari verði vegna kaupa á miðum á fyrsta leik Chelsea í riðlakeppninni.

Aðalfundur

Aðalfundur Chelsea klúbbsins verður væntanlega haldinn á Grand Hótel Reykjavík sunnudaginn 4. nóvember n.k. en þann dag mun Chelsea fá Crystal Palace í heimsókn á Stamford Bridge, hefst leikur liðanna kl. 16:00 og verður í beinni útsendingu á Grand Hótel að loknum aðalfundi. Aldrei að vita nema að bryddað verði upp á nýungum í tengslum við fundinn (sunnudagsfundur í sjálfu sér nýung), nánari fréttir um aðalfund er nær dregur.

Chelsea fatnaður

Því miður er nú ljóst að “íslenski” Chelsea fatnaðurinn sem sum ykkar hafa pantað og greitt fyrir verður ekki tilbúinn til afhendingar fyrir lok ágústmánaðar eins og þeir hjá Chelsea Football Club voru að gera sér vonir um.  Vonandi fer að líða að því að varningurinn verði tilbúinn til afhendingar, það hefur dregist fram úr hófi svo ekki sé meira sagt.