banner forsida600x150

Hinsta kveðja - Ray Wilkins

rayGenginn er á braut einn af bestu sonum Chelsea Football Club og ensku knattspyrnunnar, Raymond Colin Wilkins lést fyrr í dag, 61 árs að aldri.

Ray Wilkins heimsótti Ísland í júlímánuði 2011 sem aðstoðarmaður Nigel Spackman hjá Millwall en liðið var statt hér á landi í æfingaferð og lék hér þrjá leiki.Nokkrir félagar í Chelsea klúbbnum heilsuðu upp á þá félaga eftir leik KR vs Millwall og áttu ánægjulega stund með þeim félögum,

færðu þeim gjafir frá Chelsea klúbbnum á Íslandi og Steini Gunn opinberaði úrklippusafn sitt hvar Ray „Butch“ Wilkins var í aðalhlutverki. Það mátti vart á milli sjá hvor var hrærðari, Wilkins yfir þessu stórkostlega safni síns einlægasta aðdáanda eða þá Steini yfir að fá þetta einstaka tækifæri til að hitta átrúnaðargoð sitt í eigin persónu og það í sjálfu KR-heimilinu.

Ekki skemmdi fyrir að nokkrir félagar í Chelsea klúbbnum voru svo Millwall mönnum, bæði leikmönnum og þjálfaraliðinu, innan handar eftir kvöldstundina með þeim og sáu þeim fyrir skutli með megnið af  hafurtaski liðsins upp á Hótel Sögu á þessu fagra júlíkvöldi í Vesturbænum og fengu sumir Millwall barmmerki í kveðjuskyni.

Það var samdóma álit allra þeirra fulltrúa Chelsea klúbbsins sem hittu Wilkins þetta kvöld að þar færi sannur heiðursmaður, fágaður og kurteis í allri framkomu, vildi allt fyrir alla gera.


Wilkins lék 179 leiki fyrir Chelsea á árunum 1973 – 1979, skoraði í þeim 30 mörk og varð yngsti fyrirliði aðalliðsins í sögu félagsins, aðeins 18 ára að aldri. Þá gengdi hann störfum aðstoðarþjálfara hjá liðinu á árunum 1998 – 2000 og svo aftur 2008 – 2010, stýrði liðinu sem stjóri þess í einum leik árið 2009 og að sjálfsögðu vannst sá leikur. Wilkins átti að baki 84 leiki með landsliði Englands, skoraði 3 mörk í þeim og var fyrirliði þess í 10 leikjum.

Félagar í Chelsea klúbbnum á Íslandi senda fjölskyldu Wilkins sem og öllum aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur með kærri þökk fyrir allt og allt.