rag-rafmagnshjol
banner forsida600x150

Ferðasaga frá Stamford Bridge

Chelsea Football Club tók nýlega upp á því að verðlauna þá stuðningsmannaklúbba félagsins sem standa sig hvað best á hverju starfsári, t.d. með mestri fjölgun nýrra félagsmanna en klúbbunum er skipt í fjóra flokka eftir fjölda félagsmanna (Platinum, Gull, Silfur & Brons) annars vegar og hins vegar í þrjá flokka eftir staðsetningu (Bretlandseyjar, önnur Evrópulönd, lönd utan Evrópu).


Chelsea Football Club tók nýlega upp á því að verðlauna (hvatningarverðlaun) þá stuðningsmannaklúbba félagsins sem standa sig hvað best á hverju starfsári, t.d. með mestri fjölgun nýrra félagsmanna(New True Blue Members) en klúbbunum er skipt í fjóra flokka eftir fjölda félagsmanna (Platinum, Gull, Silfur & Brons) annars vegar og hins vegar í þrjá flokka eftir staðsetningu (Bretlandseyjar, önnur Evrópulönd, lönd utan Evrópu).Skemmst er frá því að segja að Chelsea klúbburinn á Íslandi bar sigur úr býtum í flokki Platinum klúbba annarra Evrópulanda en Bretlandseyja en nýjum “True Blue Members” innan raða klúbbsins fjölgaði um 64 eða sem nam um 27% félagsmanna.

Í viðurkenningarskyni voru úrslitin kynnt formlega á vefsíðu Chelsea Football Club, Chelsea klúbburinn á Íslandi fékk tvær Chelsea keppnistreyjur aukreitis, áritaðar af leikmönnum Chelsea, bikar til handa klúbbnum (verður afhentur talsmanni klúbbsins við fyrsta tækifæri) og jafnframt verður grein í Chelsea Magazine um niðurstöðuna.

Þá var formanni Chelsea klúbbsins og eiginkonu hans boðið í skoðunarferð um æfingasvæði Chelsea Football Club í Cobham, einnig er formanninum ásamt gesti boðið á heimaleik með félaginu og skoðunarferð um Stamford Bridge auk þess sem formanni klúbbsins er boðið að sækja “The Player of The Year Dinner at Chelsea FC”.

Formaður klúbbsins og eiginkona hans hafa nú þegar nýtt sér boðið til Cobham, var sú heimsókn farin þriðjudaginn 30. apríl s.l. í blíðskaparveðri en Tjallarnir sögðu að þann dag hafi sumarið komið til Cobham!

Eftir u.þ.b. 50 mínútna lestarferð frá Fulham Broadway (skipt um lest í Wimbledon) var komið til smábæjarins Stoke D´Abernon en lestarstöðin fyrir Cobham er í þessu litla og vinalega þorpi meðan að Cobham bærinn er fjær lestarstöðinni, æfingasvæði Chelsea Football Club nær hins vegar alveg að lestarstöðinni.

Formaðurinn fékk upphringingu í miðri lestarferðinni frá höfuðstöðvunum í London og var honum tjáð að honum væri velkomið að “stytta sér leið” frá lestarstöðinni, bara taka beygjuna til vinstri af brautarpallinum, í gegnum limgerði og hlið og þar mundu verðir taka á móti honum og eiginkonu.

Þar sem formaðurinn og frú voru mjög tímanlega á ferð, veðrið alveg frábært, þorpið fallegt, fyrri leiðarlýsing mjög góð og um stuttan veg að fara var ákveðið að afþakka gott boð um að stytta sér leið og reyndist það góð ákvörðun því á leið upp aðalgötu Stoke D´Abernon var gengið fram á “The Old Plough” en ekki var hjá því komist að hafa viðdvöl á þeim huggulega stað í bakaleiðinni.

Það er ævintýri líkast að koma á Cobham æfingasvæðið, þau gerast varla fullkomnari né glæsilegri, bæði innan dyra sem utan, gríðarleg öryggisgæsla er það fyrsta sem tekið er eftir, hingað inn fer enginn sem ekki á erindi!

Þar sem formaðurinn og frú voru mætt á undan öðrum gestum (þeir komu m.a., úr röðum annarra klúbba er höfðu unnið til sambærilegra viðurkenninga, The Fans Forum, Disabled Members, Season Ticket Holders og Chelsea Pitch Owners, alls um 30 manns) var góða veðursins notið á meðan fylgst var með leikmönnum Chelsea og þjálfarateymi streyma á staðinn, í ansi árans huggulegum bifreiðum flestir þeirra.

Starfsmenn buðu hjónum og upp á kaffisopa á meðan beðið var en er öll hersingin var mætt ásamt starfsmönnum Chelsea Membership Department var haldið í skoðunarferð um æfingasvæðið og byrjað innan dyra.

Þvílík flottheit, þarna er greinilega engu til sparað, sama hvert er litið, æfinga- og tækjasalir, sjúkra- og endurhæfingaherbergi, sundlaug, heitir pottar, nuddpottar, ENDURHÆFINGARPOTTUR sem á engan sinn líka, allur annar aðbúnaður s.s. búnings- & sturtuklefar, mötuneyti, afþreyingarsalir o.s.frv., o.s.frv., allt fyrsta flokks og rúmlega það!

Einn leikmaður var í sjúkrameðferð er hópurinn fór um húsnæðið, sá tók í höndina á hverjum einasta manni og bugtaði sig og beygði, brosti svo breitt að menn fengu ofbirtu í augun, brosti já alveg allan hringinn.

Ramires!

Því miður voru myndatökur innan dyra bannaðar en kvikmyndatökumaður frá Chelsea TV fylgdi hópnum hvert fótmál, innan dyra sem utan, mátti strax sjá hluta af afrakstrinum í fréttatíma á Chelsea TV að kvöldi dags.

Er hópurinn var leiddur út fyrir var æfing aðalliðsins langt komin og menn farnir að slá á létta strengi, jafnvel of létta að sumra mati.

Veðrið var, eins og áður sagði, alveg frábært og gáfu leikmennirnir sér góðan tíma með gestunum er þeir tíndust af æfingunni, einn að öðrum.

Það fór ekki á milli mála að Super Frankie Lampard og Fernando Torres nutu hvað mestrar hylli og þeir kunnu svo sannarlega að umgangast gestina, gáfu sér góðan tíma til skrafs, eiginhandaráritana og myndatöku.

Annars virtust flestir leikmannanna og þjálfarateymið að auki (að FSW undanskildum) njóta þessa augnabliks í góða veðrinu enda langt um liðið síðan boðið var upp á svona nokkuð á æfingasvæðinu.

Að þessu ævintýri loknu var boðið upp á léttar veitingar í “The Press Room” og var þar bæði vel útilátið í mat og drykk, sannkallað hnossgæti.

Rúsínan í pylsuendanum var David Luiz!

Luiz heilsaði upp á mannskapinn að loknum veitingum í Blaðamannasalnum, sat fyrir svörum og gerði óspart að gamni sínu, sannkallaður skemmtikraftur en samt ákaflega “dipló” er það átti við.

Eftir u.þ.b. 30 mínútur af eintómu gamni með David Luiz var svo samkomunni slitið, eftirminnilegri heimsókn á Cobham æfingasvæðið var lokið, heimsókn sem lengi verður í minnum höfð.

Formaðurinn og frú örkuðu að svo búnu í góða veðrinu sömu leið til baka að lestarstöðinni í Stoke D´Abernon, með viðkomu á “The Old Plough” í drykklanga stund:)

Með meistarakveðju,
Karl H Hillers.

P.S. Læt nokkrar myndir fylgja með pistli þessum, vonandi að einhver hafi gaman af!

#1 2448 Hún lætur ekki mikið yfir sér, lestarstöðin í Cobham & Stoke D´Abernon
#2 2417 Formaður Chelsea klúbbsins á Íslandi fyrir framan “chelsea football club”
#3 2442 Glæsileikinn hvert sem litið er!
#4 2441 Sá stutti brosti alveg hringinn á eftir:)
5# 2440 Eiginkona formannsins með átrúnaðargoðinu
#6 2439 Eins gott að verða ekki fyrir þessari, og þó!
#7 2434 Gary Cahill gat ekki stillt sig um að brosa, var það enskukunnáttan eða...
#8 2425 Nokkrir gestanna og fulltrúar Membership Department fylgjast með
#9 2429 Leikmenn farnir að tínast af æfingu, leikmaður ársins fremstur í flokki


IMG 2448 IMG 2417

IMG 2442 IMG 2441

IMG 2440 IMG 2439

IMG 2434 IMG 2425

IMG 2429